144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, þetta er auðvitað ekki boðlegt og þetta er svo fyrirsjáanlegt. Við erum með óskýra löggjöf. Menn eru ekki sammála um það nákvæmlega hvaða kæruleiðir eigi í raun og veru við. Við erum líka með miklar athugasemdir sem gerðar eru sem menn gera ekki einu sinni tilraun til að svara þannig að ég er sammála hv. þingmanni í því að þetta sé uppskrift að miklum ófriði og óþörfum ófriði, menn gætu alveg unnið þetta öðruvísi.

Hv. þingmaður nefnir rammaáætlun. Það kemur fram í 3. mgr. 2. gr. að við gerð kerfisáætlunar skuli byggja á raunhæfum sviðsmyndum um þróun raforkuframleiðslu og í greinargerðinni um þá grein er nefnt að forsendur fyrir slíkum áætlunum gætu verið áætlanir um þróun vinnslu, m.a. út frá virkjunarkostum í nýtingar- og biðflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar. Hversu raunhæfa (Forseti hringir.) áætlun telur hv. þingmaður að hægt sé að byggja á biðflokki (Forseti hringir.) rammaáætlunar um vernd og nýtingu?