144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sem nýgræðingi á þingi finnst mér dálítið sláandi þegar ég skoða 5. liðinn í greinargerð með þessu frumvarpi þar sem talað er um samráð. Þar stendur að við undirbúning frumvarpsins hafi verið haft samráð við Orkustofnun, Landsnet hf. og Samband íslenskra sveitarfélaga. Mér dettur í hug að spyrja hvort þetta þyki eðlilegt. Vinnur fólk svona á þingi? Eru þetta allir þeir sem eiga hagsmuna að gæta í þessu máli?

Mér verður hugsað til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við erum aðilar að. Þar er alltaf verið að segja að við eigum að setja upp barnagleraugun og hugsa um börnin og framtíðina þegar við erum að gera frumvörp og lagabreytingar. Ég get ekki séð að nokkur maður hafi verið með nein barnagleraugu við gerð þessa frumvarps.