144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:36]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Það er hárrétt sem hún segir og það kom líka fram bæði í umsögnum og hjá gestum á fundum nefndarinnar, það var meira að segja haft á orði að líklega hefði þetta frumvarp fyrst og fremst verið skrifað af Landsneti og hefði síðan fengið tiltölulega skjóta leið í gegnum ráðuneytin með aðkomu einhverra aðila með einhverjum fundum. Þó að Samband íslenskra sveitarfélaga sé sannarlega talið upp sem samráðsaðili er það ekki þannig að að það hafi verið sátt við niðurstöðuna. Í umsögn sambandsins kemur fram að það telji frumvarpið ófullnægjandi. Ekki hefur það samráð verið með þeim hætti að sambandið væri sátt.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir og hvaða gleraugu við eigum að vera með á nefinu þegar við erum að tala um orkuflutningskerfi fyrir landið til langrar framtíðar. Auðvitað eigum við fyrst og fremst að vera með gleraugun sem lúta að því að ganga sem minnst á gæði íslenskrar náttúru. Það eru verðmætin sem okkur var falið, og ekki af forfeðrum okkar, heldur í raun og veru falið að sinna sæmilega fyrir komandi kynslóðir. Þau gleraugu eru sannarlega ekki á neinum nefjum þarna þegar við erum að tala um hjartað í hugmyndafræðinni um sjálfbæra þróun, þ.e. við eigum ekki að taka stórar ákvarðanir nema þær gangi ekki á hagsmuni komandi kynslóða.

Hv. þingmaður talaði um barnið sem ætti að vera við borðið, eða gleraugu barnsins, og kannski er það mest krefjandi verkefnið fyrir okkur öll og okkur sem erum hér og viljum taka ábyrgar ákvarðanir að tryggja að eitt sæti við borðið sé alltaf sæti komandi kynslóða, að við séum með ímyndaðan talsmann komandi kynslóða við borðið og reynum að vera hann sjálf. (Gripið fram í: Frábær hugmynd.) Þarna hefur sá talsmaður augljóslega ekki verið í samráðinu.