144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Í upphafi máls síns fór hv. þingmaður yfir vinnubrögðin og talaði meðal annars um að meiri hluti hv. atvinnuveganefndar hefði ekki gert efnislegar breytingar á frumvarpinu og hafi ekki komið til móts við þær afdráttarlausu umsagnir sem nefndinni bárust. En það er ekki þannig, virðulegur forseti, að bara hafi hv. atvinnuveganefnd ekki tekið tillit til umsagna sem bárust utan úr bæ, ef svo má segja, heldur beið nefndin ekki eftir umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar, en í þeirri umsögn sem meiri hluti þeirrar nefndar sendi frá sér stendur:

„Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu. Frumvarpið gengur í öfuga átt við löggjafarþróun undanfarinna ára að því leyti að samráð við almenning og hagsmunaaðila hefur verið aukið við gerð viðamikilla opinberra áætlana og málum beint í sáttafarveg fremur en að um einhliða ákvarðanatöku sé að ræða, líkt og frumvarpið virðist byggja á.“

Meiri hluti atvinnuveganefndar gengur því gegn skoðunum félaga sinna, stjórnarþingmannanna. Maður hlýtur að velta fyrir sér hver verði afdrif frumvarpsins í atkvæðagreiðslu. Þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frumvarpinu talaði hún um mikinn sáttarvilja. Ég vil spyrja hv. þingmann hvernig hún telji að afdrif frumvarpsins verði og hvernig megi bæta og koma til móts við sáttarvilja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra?