144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:11]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mjög veigamikið atriði og alvarleg athugasemd sem þarna er gerð af hálfu Skipulagsstofnunar.

Það er annað atriði, annar annmarki á löggjöfinni sem ég hnýt svolítið um hér, þ.e. hin svokallaða reglugerðarheimild sem felst í frumvarpinu, en með því er ráðherra heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins, upplýsingar sem skulu vera hluti af kerfisáætlun eða fylgja með henni. Mér finnst það vera allumfangsmikil heimild sem ráðherra er gefin.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð þar sem nánar er kveðið á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins, upplýsingar sem skulu vera hluti af kerfisáætlun eða fylgja með henni, hvernig standa skuli að samráðsferli við undirbúning hennar, framkvæmd hennar og eftirfylgni, m.a. hvaða úrræði Orkustofnun hefur til að sjá til þess að kerfisáætlun sé fylgt eftir, hvernig haga skuli valkostagreiningu og hvaða forsendur og aðferðafræði skuli styðjast við.“

Ég mundi nú halda að þetta væru svo veigamikil atriði sem hér eru á ferðinni að það ætti að vera í verkahring kjörinna fulltrúa að setja löggjöf um það hvernig samráðsferlinu er háttað, hvernig valkostagreining fer fram og hvaða forsendur og aðferðafræði skuli styðjast við.

Af því að hv. þingmaður er nú fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Íslands spyr ég: Er það ekki býsna víðfeðm heimild sem ráðherra er gefið þarna til þess að fylla í eyðurnar? Væri ekki eðlilegt fyrir það fyrsta að löggjöfin mundi skrifa nákvæmlega niður hvernig þetta ætti að fara fram og í annan stað að fá þessar áætlanir inn á sitt borð til þess að geta farið yfir þær?

Þarna finnst mér atvinnuveganefnd kasta verulega til höndum í verki sínu og skilja eftir mjög vítt svið fyrir ráðherra til þess að framfylgja eigin hugmyndum í þessum efnum.