144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það skyldi þó ekki vera að stjórnarmeirihlutinn væri á flótta undan þessu máli eins og öðrum? Einn hv. þingmaður úr meiri hlutanum í atvinnuveganefnd, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, stendur hér vaktina en við sjáum ekkert til hinna. Við sjáum ekkert til hv. þingmanna Birgis Ármannssonar og Vilhjálms Árnasonar sem skrifuðu undir nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar með fyrirvara. Hvar er hv. þm. Haraldur Einarsson sem skrifar undir það nefndarálit og ekki með neinum fyrirvara? Ég hélt satt að segja þegar ég mætti í vinnu í morgun að þessi umræða mundi ekki standa svona lengi, en hún hefur nefnilega leitt það í ljós að málið er vanbúið og mér sýnist staðan vera sú að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans séu á flótta undan eigin málatilbúnaði, treysti sér ekki til að koma hingað upp og svara þeim ágætu athugasemdum sem hv. þingmenn hafa gert. Þeim er svo sannarlega ekki svarað í nefndaráliti (Forseti hringir.) meiri hluta atvinnuveganefndar þannig að ég sé enga aðra skýringu á því en að hér sé brostinn stórfelldur flótti í mannskapinn.