144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að taka undir þetta. Ég held að það sé engin leið önnur en að staldra aðeins við í þessu máli og ræða hvernig best sé að ráða fram úr þeirri stöðu sem upp er komin. Umræðan hér í dag hefur algerlega sýnt fram á að það er enginn bragur á því fyrir Alþingi að halda svona áfram. Við getum ekki látið þetta ganga svona, að þingnefndir sem fá það verkefni að veita annarri nefnd álit, meira að segja á sviði sem að mestu leyti heyrir undir þær eins og á við um umhverfis- og samgöngunefnd, séu að engu hafðar.

Hér hefur einn stjórnandi annar en framsögumaður meiri hluta atvinnuveganefndar talað í dag, ef ég hef tekið rétt eftir. Hver er það? Það er formaður umhverfis- og samgöngunefndar. Hann dró ekki eitt einasta atriði í land af því sem kemur fram í umsögn meiri hluta, og reyndar í bæði meiri hluta og minni hluta nefndarinnar, stóð við það allt saman og rökstuddi það í ræðustól. Það er enginn svipur á því fyrir þingið að láta það ganga svona áfram.

Það vill nú svo til að hér er fundað í heyranda hljóði og allt sem við segjum tekið niður og þingskjölin eru opinber. Hvernig verður svipurinn á þessari afgreiðslu? Þess vegna held ég að það eigi að stoppa og vænlegasti kosturinn fyrir nefndina sé að taka málið til sín strax aftur. Auk þess minni ég á að óskað hefur verið eftir nærveru ráðherra sem gjarnan mættu vera til svara, hæstv. umhverfisráðherra og innanríkisráðherra.