144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:28]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Það stefnir ekki í að þessari umræðu ljúki á þessu kvöldi. Ég held að það sé mála sannast að líklegast til að stytta umræður og auðvelda málefnum brautargengi í þinginu sé að menn setjist yfir það í því hléi sem gert væri á umræðunni og fari yfir það í nefndinni hvernig standa megi betur að afgreiðslu málsins í þingsalnum en raunin hefur orðið á. Við formenn þingflokka höfum rætt það hversu bagalegt það er ef nefndir þingsins virða ekki hver aðra. Við ætlumst til þess að aðrir virði nefndir Alþingis og við hljótum þess vegna að þurfa að gera það sjálf í okkar störfum. Það er því ekki neinn bragur á því að afgreiða nefndarálit án þess að hirða til eða frá um álit umhverfis- og samgöngunefndar í þinginu á málinu.