144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefur komið nokkur kurr í þessa umræðu í dag í kjölfar ræðu hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, formanns umhverfis- og samgöngunefndar. Hann upplýsti að það væri hans skoðun að til að hægt væri að afgreiða það frumvarp sem hér er til umræðu þyrfti talsverðar breytingar. Í andsvörum við mig skýrði hann út tvær breytingar sem verða að teljast meiri háttar sem hann taldi forsendur fyrir því að hægt yrði að samþykkja frumvarpið, annars vegar varðandi það að kerfisáætlun yrði lögð fyrir þingið líkt og samgönguáætlun og hins vegar, sem er náttúrlega meiri háttar mál, að það væru alveg skýrar kæruheimildir í frumvarpinu.

Síðan hefur það komið fram í umræðunni að álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar barst ekki inn í þingið fyrr en degi eftir að meiri hluti atvinnuveganefndar hafði formlega afgreitt álit sitt. Þá tel ég það liggja algerlega ljóst fyrir að það þarf að veita atvinnuveganefnd (Forseti hringir.) tóm til að fara yfir þetta og reyna að ná sátt við umhverfis- og samgöngunefnd.