144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[21:35]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mál allt hið vandræðalegasta fyrir þingið, að við séum með nefnd sem óskar eftir því að önnur nefnd komi með umsögn um mál, síðan kemur sú umsögn og það er ekkert með hana gert. Menn eru ekki einu sinni búnir að lesa hana eins og hefur komið fram í umræðunni. Það er vont. Þetta er pínlegt, þetta er óþægilegt og sýnir ekki góð vinnubrögð.

Ég tel að í ljósi þessa eigum við núna að setja punkt aftan við umræðu um þetta mál í kvöld og taka önnur mikilvægari mál á dagskrá meðan við reynum að útkljá það hvernig við ætlum að halda áfram með þetta og hvað atvinnuveganefnd ætlar að gera við umsögn umhverfis- og samgöngunefndar. Hér eru á dagskrá mikilvæg mál eins og málefni lýðháskóla og skilyrðislaus grunnframfærsla og ég held að við færum betur með okkar tíma að ræða það en það sem hér er á ferðinni.