144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og vek athygli á því að ég geri mér alveg grein fyrir því að það er frávísunartillaga í tillögu hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þ.e. tillaga um að vísa málinu til ráðherra til frekari vinnslu. Ég get tekið undir að það kann að verða niðurstaðan að skynsamlegt sé að vísa málinu þangað, en ég held að áður en það er gert eigi nefndirnar tvær a.m.k. að hittast og reyna að leiða málið til lykta. Það er ekki markmið hjá mér að tefja þetta mál eða henda því út af borðinu. Markmiðið er að finna betri lausn og það er það sem skiptir máli.

Hv. formaður atvinnuveganefndar hlær. Ég skil það þannig að hann gerir sér engar vonir um að leiða neitt mál til lykta öðruvísi en með ofbeldi. Það er það sem ég þoli ekki í þessum sal. Þau þora ekki að taka umræðuna. Hér erum við með hæstv. forsætisráðherra sem ávallt talar um rökræðu en ég hef aldrei fengið hann hingað í stól. Hv. þingmaður kemur hér inn og hraunar yfir formann nefndarinnar, sem er með samgöngumálin, segir að hann hafi ekki skilað og þess vegna gleymdum við honum. (Gripið fram í.)Ég skal orða þetta öðruvísi: Gerði harða atlögu og gagnrýndi mjög harkalega formann þeirrar nefndar. Það kann að vera rétt að menn hafi tekið of langan tíma í að veita þá umsögn en það er úrvinnsluatriði á milli nefndanna. Það er úrvinnsluatriði, það er leyst úr því í staðinn fyrir að búa til frekari ágreining.

Spurt er um landsskipulagið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að menn eigi að bíða eftir því. Aftur á móti verður þetta að falla að þeirri vinnu, alveg eins og við erum að vinna áhættumat um það hvernig við aukum öryggi í landinu þannig að menn geti ekki spillt hlutum. Þar eru til dæmis raflínur gríðarlega mikið mál. Við höfum rætt það í sambandi við eldgosið í Holuhrauni. Þannig að auðvitað tengist þetta. (Forseti hringir.) Ég er ekki að biðja um að þetta mál verði tekið af dagskrá heldur þvert á móti að menn fari með þetta í farveg og reyni að leysa það.