144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:28]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég er næst í ræðustól og tel ekki eftir mér að flytja þá ræðu en mig langar hins vegar að vekja athygli á 1. mgr. 23. gr. þingskapalaga þar sem segir, með leyfi forseta:

„Til fastanefnda getur þingið vísað þeim þingmálum sem lögð eru fram og þörf þykir að nefnd íhugi. Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað. Við framhald umræðunnar gilda á ný ákvæði 95. gr. um ræðutíma við þá umræðu.“

Svo vek ég líka athygli á lokum 4. mgr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Skal prenta umsagnir annarra nefnda með nefndaráliti um þingmálið.“ (Gripið fram í: Nákvæmlega.)

Það var ekki gert í þessu máli heldur hunsaði meiri hluti atvinnuveganefndar algerlega álit umhverfis- og samgöngunefndar. Eins og margsinnis hefur komið fram í ræðustóli í dag hefði þetta álit nefndarinnar ekki komið fyrir nema bara af því að (Forseti hringir.) það fylgdi áliti minni hluta atvinnuveganefndar.

Það hlýtur að þurfa að taka þetta til athugunar, þetta er brot á þingskapalögum.