144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er með ólíkindum hvernig hv. formaður atvinnuveganefndar ætlar að halda áfram að grafa sér holu í þessu máli. Þegar við vorum að fjalla um þessi mál og úttekt á málinu í nefndinni á sínum tíma óskaði ég eftir frestun. Umsagnir voru ekki komnar frá umhverfis- og samgöngunefnd og ég óskaði eftir frestun. Sú frestun sem ég fékk, sem ég reikna með að hv. formaður atvinnuveganefndar muni eftir, var einn sólarhringur. Málið var tekið fyrir daginn eftir, í hádeginu. Vissulega nefndi ég það við hv. formann nefndarinnar að ég mundi ræða þessi mál í mínum þingflokki. Það hlýtur að vera bara mitt mál og hvernig við vinnum lýðræðislega í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég ítreka þetta og mér finnst líka með ólíkindum að hv. formaður atvinnuveganefndar ætli ekkert að ræða efnislega um þá gagnrýni sem hefur (Forseti hringir.) komið um þetta mál.