144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með öðrum þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, það er auðvitað ekki boðlegt að vitna í tveggja manna tal á nefndarfundum og það tíðkast ekki. Hins vegar get ég sagt það með sanni sem formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við ræðum mál á þingflokksfundum og það er ekkert launungarmál að þannig vinnum við.

Ég held að virðulegur forseti hafi eitthvað misskilið tillögu mína áðan þegar ég lagði til að hlé yrði gert á umræðunni og málið aftur sent til nefndar. Ég var ekki að meina að hér ætti að ljúka 2. umr. því að það er algjörlega ljóst að málið er ekki tilbúið fyrir 2. umr. sem er hin raunverulega efnislega umræða um málið. Nefndarálit atvinnuveganefndar tekur í engu á þeim athugasemdum sem koma fram í talsvert umfangsmeiri umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar og við hljótum að gera þá kröfu sem þingmenn að þessar nefndir ræði þetta mál áður en við tökum hina efnislegu umræðu sem fer fram í 2. umr. Ég vitna til þingskapanna þar sem bent er á að hægt er að vísa málum aftur til nefndar áður en umræðu er lokið og þá er henni einfaldlega frestað. Það er það sem ég lagði hér til, ekki að 2. umr. yrði lokið (Forseti hringir.) því að þetta er efnisleg umræða og málið er ekki tilbúið í hana. Mér finnst Alþingi ekki sæmandi að umræðan sé með þessum hætti (Forseti hringir.) þar sem nánast enginn úr meiri hluta atvinnuveganefndar tekur þátt eins og sjá má og mun sjást í þingtíðindum. Þetta er bara ekki í lagi.