144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú þegar fyrir liggur að ekki næst í gegn að sinni að málið verði fært til nefndar í miðri umræðu þannig að hægt sé að leita sátta, langar mig að velta því upp bæði í gríni og alvöru hvað það er sem oftast hefur valdið hér ófriði eða ágreiningi á því þingi sem nú stendur yfir. Í tengslum við það langar mig líka að ræða sýndarsamráð vegna þess að fram kemur í umræðunni að haldinn hafi verið fjöldi funda í atvinnuveganefnd og ætlar enginn að vefengja það, en samt sem áður er mjög litlu breytt þrátt fyrir þær 200 blaðsíðna skýrslur sem fylgdu.

Hv. þingmaður hefur verið sveitarstjórnarmaður og er núna þingmaður Norðausturlands. Það er engin launung á því að menn hafa kvartað yfir því að erfitt sé að koma orku inn á þau svæði og að menn geti jafnvel verið í vandræðum með að skila orku eins og á Dalvík og víðar. Á sama tíma sjá önnur sveitarfélög af orkunni á milli svæða, eins og ég nefndi í ræðu minni, t.d. frá Blönduvirkjun. Sveitarfélögin biðjast undan því að lagðar verði línur yfir lönd þeirra til að verja hagsmuni sína og óska eftir því að orkan verði nýtt heima í héraði.

Er leiðin út úr slíkri deilu að taka skipulagsvaldið af sveitarfélögunum? Verða menn ekki að finna einhverja aðra leið til að leiða slíkan ágreining í farveg eða til lausnar en þarna er nefnd? Eins má spyrja um það sem raunar kemur fram sem tillaga frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga: Hvernig væri hægt að vinna að kerfisáætlun og leiða til lykta ágreining sem þar kemur upp?