144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:32]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Vegna spurninga hv. þingmanns þá er svarið augljóst. Auðvitað ber að fara eftir þingsköpum. Forseti hefur stöðugt talað fyrir því og veit að hv. þingmenn vilja vitaskuld allir fara eftir þingsköpum. Forseti vakti einfaldlega athygli á því áðan að það er ekki einsdæmi að héðan úr ræðustól Alþingis, og reyndar utan ræðustóls Alþingis, hafi verið vitnað með beinum og óbeinum hætti í ummæli sem fallið hafa á nefndarfundi. Forseti hefur ekki talið ástæðu til þess sérstaklega að gera athugasemdir við slíkt. Forseta er það ljóst, eins og hv. þingmönnum, hvað stendur í þingsköpum og hefur þrátt fyrir það ekki talið að sérstakt tilefni sé til að gera athugasemdir af því tilefni.

Það ber þó ekki að skilja sem svo að forseti sé ánægður með það þegar það gerist að hv. þingmenn fara ekki eftir þessari grein þingskapanna en forseti hefur, eins og hann hefur áður áréttað, ekki talið sérstakt tilefni til þess að taka það mál upp með beinum hætti héðan af forsetastóli.