144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að skerpa aðeins á skilningi fólks á þingsköpum. Hvernig í ósköpunum eigum við að halda þessari umræðu áfram með þessu móti?

Virðulegur forseti útskýrði í löngu en ekki sérlega skýru máli hvernig hann skildi 1. mgr. 19. gr. um að óheimilt væri að vitna í orð nefndamanna eða gesta sem falla á lokuðum nefndarfundi, að það væri alvanalegt að það gerðist. Það bara gerist. Eigum við að fara að opna á það sem eðlilega hegðun hér að við vitnum til að mynda í þau orð sem falla á fundum þingflokksformanna? Eigum við að gera það? Hvar eru þessi mörk? Hvenær byrjar þetta og hvenær lýkur því? Hvenær er það í lagi? Er það í lagi þegar hv. þm. Jón Gunnarsson gerir það? Eða er það í lagi þegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir gerir það? Stundum en stundum ekki? Hvaða reglur eru þetta? Þetta er ekki boðlegt, þetta dugar ekki svona.

Ég vil líka vita, af því að hæstv. forseti (Forseti hringir.) talar um að hann telji (Forseti hringir.) að ljúka eigi 2. umr., (Forseti hringir.) hvaða skilyrði þarf virkilega að uppfylla ef þessi duga ekki til að mál sé tekið til nefndar (Forseti hringir.) þó að 2. umr. sé ekki lokið. (Forseti hringir.) Hvaða skilyrði þarf þá að uppfylla?