144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Manni heyrðist að auki að ekki væri einungis verið að vitna í menn heldur beinlínis leggja fólki orð í munn eða gefa í skyn einhverja útgáfu af máli sem ekki var til staðar. Þetta er ekki boðlegt og forseti á ekki að líða þetta. Ég fagna því að hann segi okkur hér að hann muni taka þetta upp við hv. þingmann undir öðrum kringumstæðum en héðan af forsetastóli.

Ég verð líka að segja að það gengur ekki upp að senda okkur til atkvæðagreiðslu eftir 2. umr., þar sem við erum í raun að afgreiða hverja einustu grein málsins, með málatilbúnaðinn ekki betri en þetta. Það er það sem við erum að biðja hæstv. forseta um að endurskoða.

Á nefndin að fara að skoða allt málið aftur eftir að búið verður að greiða atkvæði um það við 2. umr.? Eiga menn þá að fara að taka tillit til athugasemda samþingmanna sinna í öðrum nefndum, þingmanna sem þeir hafa óskað eftir umsögnum frá? Þetta gengur bara ekki upp. Málið getur ekki farið svona til atkvæðagreiðslu. Það er þess vegna sem óskað er eftir því að málið verði tekið á dagskrá og fundað verði um það í nefndinni.