144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:44]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. formaður atvinnuveganefndar kemur hingað upp og bætir málið kannski ekki mikið með orðum sínum. Hann talar um að náðst hafi svo víðtæk pólitísk sátt. Maður er kannski ekki alveg farin að skilja hvað sátt þýðir í hans huga miðað við ýmis önnur mál.

En ég ætla að stilla mig um að vísa til hans orða þegar ég talaði um að við þyrftum að fá að sjá umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd. En auðvitað er það engin víðtæk pólitísk sátt sem myndast þó að menn fari ekki í hanaslag í lok langs nefndarfundar þegar taka á þetta stóra mál út. Ég byrja á því að biðja um frest og fæ í framhaldi af því frest í einn sólarhring og tala um að ég þurfi að ræða þetta mál vel í mínum þingflokki. (Forseti hringir.) Er það skilningur á víðtækri pólitískri sátt við mig? Er þá mitt nefndarálit pólitísk sátt við meiri hlutann?