144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[23:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa tekið af öll tvímæli um það að 19. gr. þingskapa sé enn í fullu gildi og formanni atvinnuveganefndar fyrir að hafa beðist afsökunar á þessu frumhlaupi sínu. Ég held að það væri sömuleiðis til að greiða fyrir málinu ef formaður atvinnuveganefndar hefði frumkvæði að því að hér væru líka virt ákvæði 23. gr. þingskapa og forseti tæki það til sín ef það verður ekki því að ég tek undir með hv. 9. þm. Norðaust., Bjarkeyju Gunnarsdóttur, um að það ákvæði verður auðvitað líka að uppfylla. Hvað varðar víðtæka sátt í nefndinni er það kannski eðlilegt þegar ég veit ekki betur en að á þessum nefndarafgreiðslufundi hafi bæði fulltrúi Samfylkingarinnar og fulltrúi Bjartrar framtíðar verið veikir og fjarverandi og fulltrúi Vinstri grænna með þessar athugasemdir og eftir því sem ég best veit eiga Píratar ekki aðalfulltrúa í atvinnuveganefnd þannig að samhljómur í stjórnarflokkunum er ekki víðtæk pólitísk sátt, hv. þm. Jón Gunnarsson.