144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á, af því að ég náði því ekki í síðustu viku, að hrósa hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðu sem hann hélt þá undir þessum lið ef ég man rétt, þar sem hv. þingmaður sagði mjög skýrt að hann vildi að Ísland gerðist aðili að Evrópusambandinu. Ég held að grunnurinn að málefnalegri og upplýstri umræðu sé einmitt sá að menn taki umræðuna á þessu stigi. Ég held að ekki sé nokkur einasta leið að halda slíkri umræðu áfram án þess að hv. þingmenn, sem hafa haft öll tækifæri til að kynna sér hvað felst í að vera aðili að Evrópusambandinu, komi hreint fram og tali um hlutina út frá þeim skoðunum sem þeir hafa. Við erum í einhverjum séríslenskum samkvæmisleik sem gengur út á það að menn þykjast ekki kannast við hvað nákvæmlega felst í að vera í Evrópusambandinu og tala síðan út frá því. Ég veit ekki til að þessi leikur sé viðhafður annars staðar.

Hingað kom hv. þm. Róbert Marshall og talaði mjög skýrt, skárra væri það nú að hv. þingmaður, sem hefur tekið þátt í umræðum um þessi mál og verið í stjórnmálum um langan tíma, væri ekki búinn að mynda sér skoðun um þetta stóra málefni.

Ég vona að umræðan verði með þessum hætti, því að enginn vafi er um það að miklu betra er að ræða mál eins og þetta út frá staðreyndum heldur en út frá einhverju allt öðru.

Þess vegna vildi ég, af því ég var á lista og komst ekki til að hrósa hv. þingmanni í síðustu viku, nota tækifærið og gera það núna.