144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:04]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Virðulegi forseti. Oft eru umdeild mál til umræðu í samfélaginu, en sjaldan hef ég orðið vitni að jafn hatrammri og einstrengingslegri umræðu og þeirri sem hefur skapast í kringum bólusetningar á síðustu dögum. Ég horfði á frétt um daginn á Stöð 2 þar sem Linda Blöndal tók viðtal við þriggja barna móður sem ákveðið hafði að bólusetja ekki yngsta barn sitt vegna gruns um að eldra barn hennar hefði brugðist illa við bólusetningu. Loksins sýnir fréttamaður smálit og gefur okkur innsýn í hina hlið málsins. Í stað þess að fagna lýðræðislegri umræðu eru viðbrögð við fréttinni að þagga niður í þeirri rödd. Ekki einungis er móðirin sem tekið var viðtal við uppnefnd sem einhver afdalavitleysingur, nú er ég að fegra orðræðuna, heldur er fréttamaður ásakaður um að vera ófaglegur, hlutlægur og líklegast á móti bólusetningum. Hvað er þetta annað en þöggun?

Mér er hugsað til Bandaríkjanna eftir 11. september 2001 þar sem ekki mátti gagnrýna valdstjórnina án þess að vera uppnefndur „un-american“ eða „anti-patriot“.

Nú er ég ekki að kenna íslenskt heilbrigðiskerfi við valdstjórn Bandaríkjanna, en við sem samfélag erum komin á hálan ís þegar það þykir í lagi að þagga niður í samborgurum okkar með sams konar uppnefnum. Maður spyr: Af hverju er ekki hægt að ræða bólusetningar á yfirvegaðan hátt eins og hvert annað mál? Hvað er fólk svona hrætt við?

Í lýðræðislegu samfélagi á fólk að hafa rétt á sinni skoðun og okkur ber að sýna þeim skoðunum umburðarlyndi og takast á um ólíka hugmyndafræði með heilbrigðri gagnrýni og virðingu. Ég skora á samborgara mína að opna umræðuna og bjóða alla velkomna til að taka þátt án hræðslu við að vera útskúfuð eða uppnefnd. Það hræðilegasta sem gæti gerst er að við gætum mögulega lært eitthvað hvert af öðru, sem er kannski ekkert svo hræðilegt.