144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á mbl.is er í dag fjallað um nýja rannsókn á áhrifum heimilisofbeldis á börn. Það er margt áhugavert sem kemur fram í þessari rannsókn um það sem börn sem búa við heimilisofbeldi upplifa og samkvæmt erlendum rannsóknum má greina streitu hjá börnum sem búa við heimilisofbeldi sambærilega við þá sem börn upplifa á stríðshrjáðum svæðum.

Það sem vakti athygli mína í þessari frétt, sem fjallar um rannsókn Margrétar Ólafsdóttur og Ingibjargar H. Harðardóttur sem báðar eru starfsmenn Háskóla Íslands, er að börnin sem voru til viðtals í rannsókninni kalla eftir aukinni fræðslu í skólum um heimilisofbeldi og áhrif þess á börn.

Þetta finnst mér vera ákall sem við á Alþingi eigum að hlusta eftir og taka til okkar. Ég vil í þessu samhengi rifja upp að á síðasta kjörtímabili var farið af stað með Vitundarvakningu, sem hófst sem vitundarvakning um kynferðislegt ofbeldi og var fræðsluátak fyrir börn um kynferðislegt ofbeldi. Nafnið breyttist síðan í Vitundarvakningu um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum. Í tillögum samráðshóps á vegum forsætisráðuneytisins var lagt til að útvíkka beinlínis þá vitundarvakningu í þeim anda sem UNICEF hefur lagt til um sérstakt ofbeldisvarnaráð þannig að við stöndum að fræðslu um ofbeldi fyrir börn á öllum skólastigum, fræðslu og forvörnum. Og það sem vekur athygli mína eftir að hafa séð þessar tillögur vorið 2013 er að þetta er það sem börnin sjálf sem hafa búið við heimilisofbeldi kalla eftir, þau kalla eftir fræðslu og forvörnum í skólum þannig að þau geti leitað til aðila innan skólakerfisins með sína reynslu. Ég held að þetta sé ákall sem við eigum að hlusta eftir. Við eigum að taka upp þá tillögu sem fyrir liggur, tryggja fjármagn til skólanna þannig að þeir geti staðið fyrir slíkri fræðslu og forvörnum. Verðmiðinn á slíku átaki er 10 millj. kr. Það er ekki hátt verð (Forseti hringir.) til að koma til móts við jafn alvarlegt vandamál og heimilisofbeldi er.