144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Verkefnið afnám hafta er mér hugleikið og við minnihlutaflokkarnir á þingi verðum með opinn fund um afnám hafta á morgun í Iðnó og eru allir velkomnir.

Í gær tókst mér með hugleiðingum mínum um afnám hafta að koma hæstv. forsætisráðherra úr jafnvægi og nú ætla ég að freista þess að koma hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, úr jafnvægi líka með sams konar hugleiðingum.

Í mínum huga snýst afnám hafta um að afnema höft, að koma á frjálsum fjármagnsflutningum milli Íslands og umheimsins. Það verður að gera þannig að það efli traust á hagkerfinu til langs tíma og sé í samræmi við markmið um langtímastöðugleika. Ég er enginn sérstakur talsmaður kröfuhafa í þessu verkefni, eins og ég var vændur um í gær. Ég tel að við ættum að skoða leiðir eins og t.d. útgönguskatt mjög vel og með opnum huga. Ég held að það geti verið álitleg leið en hún er mjög róttæk. Hún snýst um að skattleggja eigur úti um allar koppagrundir í útlöndum og hérlendis og það þarf sterk pólitísk bein til að fara þá leið.

Ég velti því fyrir mér og ég hef heyrt fyrir því sterk rök að það geti veikt stöðu okkar og verið slæmt bæði hagfræðilega og lagalega að líta á útgönguskatt eða aðrar leiðir til þess að afnema höft sem einhverja sérstaka leið til að afla tekna fyrir ríkissjóð. Mér finnst þeirra sjónarmiða gæta hjá hæstv. forsætisráðherra að hann vilji einhvern veginn reyna að græða á öllu saman, reyna að græða á afnámi hafta. Ég vil spyrja hv. þm. Frosta Sigurjónsson hvort hann telji varhugavert að nálgast verkefnið, afnám hafta, með þeim huga að hægt sé að græða mörg hundruð milljarða á því, hvort það sé varhugavert bæði út frá hagfræðilegum sjónarmiðum (Forseti hringir.) og lögfræðilegum, og eins líka, sem er ekki ólíklegt, (Forseti hringir.) að ef fyrir safnast digrir sjóðir í Seðlabanka Íslands að afloknum þessum aðgerðum, (Forseti hringir.) hvað mundi hann vilja gera við þá peninga.