144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Einn af þeim virkjunarkostum sem meiri hluti atvinnuveganefndar freistar nú einhliða að láta flytja yfir í nýtingarflokk rammaáætlunar án faglegrar skoðunar er Hagavatnsvirkjun. Í tveimur umsögnum sem Íslensk vatnsorka hefur skilað inn til atvinnuveganefndar í því umsagnarferli sem nú stendur yfir segir frá því að búið sé að hanna svokallaða rennslisvirkjun á svæðinu sem sé mun umhverfisvænni kostur en áður hefði verið stefnt að. Það feli í sér að í Hagavatni og í virkjuninni verði stöðugt vatnsyfirborð sem muni hafa mjög heftandi áhrif á sandfok á svæðinu, en svæðið er eitt af helstu uppfokssvæðum landsins. Gott og vel.

Í millitíðinni, á milli þess sem þessar tvær umsagnir hafa borist atvinnuveganefnd, hefur borist skýrsla frá verkfræðistofunni Mannvit til verkefnisstjórnar um sömu virkjun sem unnin var fyrir sama fyrirtæki, þ.e. Íslenska vatnsorku. Þar greinir frá því að um hefðbundna toppaflsvirkjun sé að ræða, toppaflsstöð, sem felur í sér að vatnsborðssveifla á svæðinu verði fimm metrar. Það felur í sér að vatnið, sem er fimm ferkílómetrar, verði stækkað upp í 23 ferkílómetra og fari niður í 17 ferkílómetra, og mun þess vegna hafa þær afleiðingar að uppfok og sandfok á svæðinu mun margfaldast miðað við það sem nú er.

Það hlýtur að vera í verkahring meiri hluta atvinnuveganefndar, ætli hún að halda þessu leikriti sínu áfram hvað varðar rammaáætlun, að ganga úr skugga um það hvers lags virkjunarkostur sé þarna á ferðinni og athuga og tryggja að það sé ekki verið að fífla þingið með misvísandi upplýsingum um hvað menn ætli sér að gera með skelfilegum afleiðingum fyrir allt suðvesturhornið og landið allt.