144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[15:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001, og lögum um neytendalán, nr. 33/2013, með síðari breytingum. Frumvarpið er samið með hliðsjón af tillögum nefndar sem falið var að endurskoða bann íslenskra laga við gengistryggingu og útfæra varúðarreglur vegna hættu sem fjármálakerfinu stafar af erlendum lánum. Í nefndinni sátu fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands.

Meginmarkmið frumvarpsins er að styðja við áform íslenskra stjórnvalda um losun fjármagnshafta og draga úr óstöðugleika sem íslensku fjármálakerfi stafar af erlendum lánum. Tilurð frumvarpsins má einnig rekja til sjónarmiða Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem fram koma í rökstuddu áliti frá 22. maí 2013. Stofnunin álítur að fortakslaust bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum sé ekki í samræmi við meginreglu EES-samningsins um frjálst fjármagnsflæði. Í frumvarpinu er því lagt til að opnað verði á heimildir til að veita umrædd lán og að þau verði framvegis meðhöndluð sem erlend lán.

Um mitt ár 2010 komst Hæstiréttur Íslands að þeirri niðurstöðu að ákvæði VI. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, stæðu því almennt í vegi að lánveitendur veittu lán í íslenskum krónum með skilmála um að lánsfjárhæðin væri bundin við gengi erlendra gjaldmiðla en jafnframt að lögin reistu ekki skorður við lánum í erlendum gjaldmiðlum. Eftir að niðurstaðan lá fyrir risu fjölmörg dómsmál þar sem lántakar freistuðu þess að hnekkja efni skuldbindinga sinna á þeirri forsendu að lánin sem þeim hefðu verið veitt væru gengistryggð og teldust því ekki vera lögmæt erlend lánveiting. Ekki er óvarlegt að ætla að upphaf málaferlanna hafi mátt rekja til þeirrar óhagstæðu gengisþróunar sem varð í aðdraganda bankahrunsins.

Enda þótt aðgreiningin á milli gengistryggðra lána í íslenskum krónum og lána í erlendum gjaldmiðlum hafi í dómum Hæstaréttar haft úrslitaáhrif á réttarstöðu einstakra lántaka bera dómarnir með sér hversu erfitt getur verið að skilja á milli umræddra lánategunda. Verður að ætla að sá dráttur hafi meðal annars gefið löggjafanum tilefni til að lengja fyrningarfrest uppgjörskrafna vegna ólögmætrar gengistryggingar á 143. löggjafarþingi, samanber lög nr. 38/2014. Þá varpa dómarnir ljósi á hversu rík samsvörun er á milli umræddra lána, bæði með tilliti til fjármögnunar þeirra og í annan stað þeirrar áhættu sem af þeim stafar, ekki síst þegar lántakar með tekjur í íslenskum krónum eiga í hlut.

Gjaldeyrisáhætta er almennt fólgin í því að við lækkun á gengi íslensku krónunnar hækkar höfuðstóll erlendra lána mældur í íslenskum krónum sem getur leitt til hærri afborgana og vaxtagreiðslna sem og lakari eiginfjárstöðu lántaka þar sem eigið fé lækkar til samræmis við hækkun undirliggjandi lána. Lækkun á gengi íslensku krónunnar kann því að auka líkur á greiðslufalli og/eða vanskilum og þar með útlánatapi lánveitanda.

Ein birtingarmynd þeirrar útlánaþenslu sem varð á Íslandi á árunum fyrir bankahrunið var fólgin í verulegri aukningu erlendra lána til innlendra aðila sem margir hverjir voru ekki varðir fyrir gengissveiflum, þ.e. höfðu hvorki til reiðu nægar tekjur né tryggingar í viðkomandi gjaldmiðlum. Skyndileg lækkun íslensku krónunnar á árinu 2008 varð því til þess að lántakar sem báru slíka gjaldeyrisáhættu áttu erfitt með að standa í skilum og þar sem lánin voru fjármögnuð í erlendum gjaldmiðlum olli það ásamt öðru lausafjárþurrð lánastofnana og óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Áhættan sem þessari lánastarfsemi fylgdi laut því ekki einvörðungu að hlutaðeigandi lántökum og lánveitendum heldur þjóðfélaginu í heild sem eftir bankahrunið sat uppi með fjármagnshöft í þeim tilgangi að verja stöðugleika gengisins.

Frumvarpið felur í sér að heimildir eftirlitsaðila verði styrktar nú í aðdraganda afnáms fjármagnshafta til að takmarka gjaldeyrisáhættu innlendra aðila með það að markmiði að áhættan verði ásættanleg fyrir lántaka og lánveitanda sem og þjóðarbúið. Að auki má nefna að í tilmælum evrópska kerfisáhætturáðsins um lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, sem litið var til við gerð frumvarpsins, er á það bent að eftirlitsaðilar einstakra ríkja á fjármálamarkaði þurfi á mismunandi úrræðum að halda í lögum sem hægt er að beita eftir eðli kerfisáhættu og þegar aðstæður kalla á.

Virðulegur forseti. Í framhaldinu verður nú vikið að helstu breytingartillögum frumvarpsins en þær er að finna í 2., 3. og 5. gr. þess. Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að hugtakið erlent lán verði notað sem samheiti yfir lán í erlendum gjaldmiðlum og gengistryggð lán í íslenskum krónum og að heimilt verði að veita slík lán nema lög mæli á annan veg. Eins og áður greinir er margt líkt með umræddum lánum, einkum með tilliti til þeirrar áhættu sem þeim fylgir fyrir einstaka lántaka, lánveitendur og þjóðarbúið.

Í 3. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á lögum um Seðlabanka Íslands sem felur í sér að bankanum verði veitt heimild til að setja reglur um erlend lán lánastofnana þar sem hægt er að binda slíkar lánveitingar ákveðnum skilyrðum sem varða tekjur lántaka, tegund trygginga, upplýsingaskyldu lánveitanda, lengd lánstíma og tilhögun endurgreiðslna. Skilyrðin ættu við þar sem erlend lánveiting hefði í för með sér gjaldeyrisáhættu en gætu verið mismunandi eftir því hvaða flokkar lántaka ættu í hlut, svo sem tilteknir hópar einstaklinga eða lögaðila, sveitarfélög og aðilar sem opinberir aðilar eru í ábyrgð fyrir. Um inntak þessara skilyrða má að öðru leyti vísa til athugasemda við greinina.

Ákvæði 3. gr. frumvarpsins er hugsað sem varúðartæki sem ekki yrði beitt nema nauðsyn krefði að mati fjármálastöðugleikaráðs en aðkomu ráðsins er ætla að renna stoðum undir tilgang reglnanna og samhæfa aðgerðir Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands á þessu sviði. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir að heimildir neytenda til töku erlendra lána verði takmarkaðar í lögum um neytendalán og á vettvangi innanríkisráðuneytisins er unnið að því að skilyrða heimild sveitarfélaga til slíkrar lántöku. Ef þessi áform ná fram að ganga munu heimildir Seðlabankans samkvæmt 3. gr. frumvarpsins fyrst og fremst hafa þýðingu í tengslum við erlend lán lánastofnana til lögaðila eða tilgreindra hópa lögaðila ef slíkar lánveitingar verða taldar ógna jafnvægi í hagkerfinu og fjármálastöðugleika.

Í a-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að greiðslumat verði jafnan framkvæmt þegar neytandi tekur lán sem tengist öðrum gjaldmiðli en hann hefur tekjur í. Ef niðurstaða þess bendir til að lántaki hafi ekki augljósa fjárhagslega burði til að standast verulegar breytingar á gengi þess gjaldmiðils sem tekjur lántaka eru í, samanborið við þann gjaldmiðil sem lánið er í eða tekur mið af, gerir tillagan ráð fyrir að óheimilt verði að veita slík lán. Í b-lið 5. gr. er sérregla sem veitir ráðherra, að fenginni umsögn Seðlabankans, heimild til að binda greiðslumat vegna erlendra lána strangari skilyrðum en leiðir af a-lið greinarinnar, svo sem þeim að slík lán verði ekki veitt nema neytandi standist greiðslumat í viðkomandi gjaldmiðlum.

Sú nálgun sem farin er í frumvarpinu byggist á því að ekki eigi að ganga lengra í að skerða heimildir neytenda til erlendrar lántöku en nauðsyn ber til. Afstaða mín er sú að meginreglan í a-lið 5. gr. frumvarpsins eigi að gilda nema sérstakar aðstæður kalli á að strangari skilyrði verði sett. Samkvæmt b-lið 5. gr. yrði innanríkisráðherra að fenginni umsögn Seðlabankans og eftir atvikum að fengnum tilmælum fjármálastöðugleikaráðs heimilt að setja ákvæði í reglugerð um að binda erlend lán því viðbótarskilyrði að lántaki stæðist greiðslumat í viðkomandi gjaldmiðlum. Það má velta fyrir sér í því samhengi í þinglegri meðferð hvort ráðherra bæri að setja slík ákvæði í reglugerð en það sé einungis heimilt.

Að þessu mæltu, virðulegi forseti, legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.