144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[15:56]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek eftir því að hæstv. fjármálaráðherra sneiðir sérstaklega hjá því að svara til um kosningaloforð Framsóknarflokksins um afnám verðtryggingar sem hefði auðvitað átt að fylgja hér í málinu og kannski rétt að óska eftir því að hæstv. forsætisráðherra verði við umræðuna og upplýsi um þann þátt.

Hvað varðar lagaheimildirnar þá eru þetta einfaldlega allt of rúmar lagaheimildir sem ráðherrann leitar hér eftir miðað við álit ESA. Eftir þær skelfilegu ófarir sem gengistryggðu lánin færðu yfir fólk og fyrirtæki í landinu þá er það a.m.k. að tefla mjög á tvær hættur fyrir löggjafann að ætla ekkert að læra af reynslunni þegar fólk og fyrirtæki urðu unnvörpum tæknilega gjaldþrota meira og minna á einni nóttu vegna gengistryggðra lána og ætla að veita bankanum þær rúmu heimildir til þess að setja reglur sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Vissulega kann að þurfa að koma til móts við álit ESA, en það er álit mitt að við eigum að læra af reynslunni, að við eigum að læra af hruninu og að Alþingi eigi að veita framkvæmdarvaldinu og Seðlabankanum eins takmarkaðar heimildir og mögulegt er í þessum efnum. Annars, virðulegur forseti, er veruleg hætta á því að sama ógæfan endurtaki sig, vegna þess að það er ekki þannig og það var sannarlega ekki þannig í aðdraganda hrunsins að þær reglur og ákvarðanir sem teknar voru í Seðlabankanum hafi reynst óskeikular.