144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður þarf að gera sér grein fyrir því að við þurfum að bregðast við þeim athugasemdum sem upp eru komnar. Menn geta svo sem haft þau sjónarmið að við eigum að láta reyna á dómstólaleiðina í þessu máli, en mér fannst það ekki liggja í orðum hv. þingmanns. Hér er farin sú leið sem ég tel að sé skynsamlegt að gera, að líta á þessi tvö lánaform sem eitt og hið sama í raun og veru vegna þess að þau hafa sama eðlið, og segja síðan: Það er ekki ásættanlegt að sama áhættan geti aftur byggst upp í lánveitingum til almennings í landinu sem er óvarinn og leiðin sem við getum þá farið er fyrst og fremst sú að byggja á einhvers konar greiðslumati. Þegar hv. þingmaður segir að við eigum að fara aðrar og mun strangari leiðir þá kalla ég eftir svari við því hvað annað en greiðslumat er rétt nálgun til þess að komast að niðurstöðu um það hvort eðlilegt sé og áhættulítið að veita hvort sem er fyrirtækjum eða einstaklingum gengistryggð eða erlend lán.

Við stöndum frammi fyrir því að bann við gengistryggðum lánum eitt og sér gengur ekki upp. Það sama gildir um blátt bann við erlendu lánunum. Þess vegna er þessi leið farin. Það þurfa að vera einhver lögmæt skilyrði. Þau er að finna í frumvarpinu. Hérna er farin sú leið að segja að menn þurfi að standast greiðslumat. Önnur leið væri sú að ganga skrefinu lengra. Hér er lagt upp með það að menn þurfi að geta staðist verulegar sveiflur. Einhver kynni að segja: Við skulum leggja blátt bann við því að veita slíkt lán ef viðkomandi hefur engar tekjur í erlendri mynt. (Gripið fram í.)

Hér legg ég málið inn til þingsins með aðeins opnari hætti, enda tel ég að þeir sem geta á grundvelli verulega sterkrar eignastöðu (Forseti hringir.) staðist miklar sveiflur ættu a.m.k. að fá að njóta vafans (Forseti hringir.) um það og að við hljótum að byggja (Forseti hringir.) á því að það sé opinn og frjáls gjaldeyrismarkaður og menn geti skipt íslenskum krónum yfir í erlendar eignir á slíkum opnum markaði og staðið (Forseti hringir.) þannig við skuldbindingar sínar.