144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hér er sett fram af hálfu hæstv. ráðherra er rétt, þ.e. vissulega er verið að setja ákveðin viðmið, en af hálfu ráðherrans í ræðunni hér áðan er fallist á það að fortakslausa bannið standist ekki EES-samninginn. Ég er að vekja athygli á því og setja fram efasemdir um skynsemi þess og vekja líka upp umræðu um það hvaða lögfylgjur það kunni að hafa í för með sér fyrir ríkið.

Hæstv. fjármálaráðherra verður að sætta sig við það að hann er ekki einhver spraðabassi úti í bæ sem getur sagt hvað sem honum dettur í hug. Þegar hann segir úr ræðustóli Alþingis í framsögu fyrir þessu máli að afstaða hans sé sú að fortakslaust bann við gengistryggðum lánum standist ekki þá felst í því mörkuð afstaða stjórnvalda og það getur haft afleiðingar. Það er ósköp einfaldlega þannig að þeir sem kunna þá að telja rétt á sér brotinn í ljósi þess geta leitað réttar síns. Það er umhugsunarefni sem mér finnst að hæstv. fjármálaráðherra hefði þurft að taka efnislegri og betri afstöðu til, hvort ekki hefðu verið efnisrök til þess að láta á skoðun Eftirlitsstofnunar EFTA reyna fyrir dómi og halda uppi vörnum fyrir það fortakslausa bann sem hefur verið beitt á Íslandi, hefur verið framfylgt af Hæstarétti og hefur haft gríðarlegar lögfylgjur í för með sér og lækkun skuldastabba fjármálafyrirtækja um næstum því 200 milljarða. Þetta eru engar smáfjárhæðir. Það hefur auðvitað áhrif með hvaða hætti er talað um lögfræðilegan grunn slíkra ákvarðana.

Um erlendu lánin mun ég svo fjalla í síðara andsvari.