144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta fannst mér málefnalegra innlegg. Staðan er sem sagt þessi: Við getum tekið slaginn um að reyna að verja fortakslaust bann við gengistryggðum lánum. Hér er valin önnur leið. Hún er sú að tryggja að slíkar lánveitingar verði ekki veittar nema fyrir því sé góður grunnur. En ef menn ætluðu að taka til varna í slíku máli, hvernig færu menn þá að því að útskýra að aðili með traustar tekjur í erlendum gjaldmiðli mætti jú taka erlent lán en hann mætti alls ekki og það væri fortakslaust bann við því að hann tæki gengistryggt lán? Hvernig, í ljósi rökstudds álits ESA, ætluðu menn að færa skynsamleg rök fyrir því að á Íslandi væri sú regla að fortakslaust bann væri við gengistryggingu jafnvel þótt maður væri með allar sínar tekjur í erlendum gjaldmiðli en það væri í góðu lagi að taka erlent lán? (Forseti hringir.) Eins og ég hef lýst yfir þá hafa þessi tvö lánaform nákvæmlega sömu eiginleika. Það stenst varla skoðun í ljósi álits ESA.