144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:20]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn heldur hæstv. ráðherra áfram og staðfestir áhyggjur mínar. Hann segir úr ræðustóli Alþingis að það sé enginn munur á lánaformunum. Hæstiréttur hefur talið svo mikinn grundvallarmun á lánaformunum að hann hefur þvingað fjármálafyrirtæki til að tapa 200 milljarða á öðru en ekki hinu. Það er grundvallarlögfræðileg niðurstaða sem liggur fyrir af hálfu dómstóla og mér finnst ekki traustvekjandi af hálfu fjármálaráðherra að koma hér fram og gera lítið úr þeim efnislega mun.

Svo kunna að vera efnisleg rök fyrir því að hemja rétt til erlendra lána út frá almennum varúðarsjónarmiðum. Ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra um það enda hef ég oft úttalað mig um að það geti verið skynsamlegt. En ég tek líka eftir því að hæstv. ráðherra kýs að tjá sig ekki um það sem ég nefndi áðan, hina stóru og miklu byggingu sem hér er byggð í kringum (Forseti hringir.) matskenndar ákvarðanir Seðlabankans sem síðan á að svipta faglegri forustu eftir nokkra daga.