144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:24]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim ákvæðum í frumvarpinu sem lúta að því að styðja við neytendarétt og að hamla áhættutöku vegna gengistryggðra lána og erlendra lána. Hv. þingmaður spyr mig hvort ég sé andvígur því að fólk taki lán í öðrum gjaldmiðli en það hefur tekjur í. Ég ráðlegg engum að gera það og ég mundi ekki þora að gera það sjálfur en mér finnst óþarfi að banna það.

Mjög margir Íslendingar, þorri Íslendinga, taka lán í öðrum gjaldmiðli en þeir fá borgað í. Þeir fá borgað í íslenskum krónum en þeir taka lán í verðtryggðum krónum. Það er algerlega ólíkir gjaldmiðlar. Þegar vextir hækka á krónum lækka þeir á verðtryggðum krónum og eins og við sáum í hruninu þá er gengistrygging eitt form verðtryggingar. Misvægið milli verðtryggðrar krónu og íslenskrar krónu varð ekki eins mikið og misvægið milli erlendra gjaldmiðla og íslenskrar krónu en það varð býsna mikið samt. Ég tel þess vegna stefnu ríkisstjórnarinnar, þessa herferð gegn 40 ára verðtryggðum lánum algerlega óskiljanlega og forsjárhyggju af verstu sort þegar mæta ætti því með lánshæfismati, með upplýsingagjöf til fólks og m.a. með þeirri skýringu til þess fólks sem tekur 40 ára lán að það sé þá í reynd leigutakar hjá sjálfum sér fyrstu 15 árin vegna þess að niðurgreiðsla höfuðstóls er óveruleg.

Grundvallaratriðið er að gengistryggingin sem hér er verið að réttlæta og innleiða að ákveðnu marki er ekkert annars eðlis en almenn íslensk verðtrygging. Það felst í því misvægi að miða íslenska krónu við erlenda gjaldmiðla rétt eins og með innlenda verðtryggingu.