144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[16:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir nokkuð yfirgripsmikla ræðu. Hann fór dálítið út fyrir efni frumvarpsins en það er allt í lagi.

Nú er það þannig að svokallað Íslandslán, 40 ára lán verðtryggt jafngreiðslulán, hefur sýnt sig að vera það lánaform sem fólk með lágar tekjur ræður hvað best við. Þó að það sé dýrt og með háum raunvöxtum er það sá kostur sem hefur gefið fólki með lágar tekjur yfirleitt möguleika á að eignast húsnæði. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort ekki þurfi að skoða það líka að ef við styttum lánstímann í 25 ár verði erfiðara fyrir fólk með lágar tekjur að eignast húsnæði og kannski ómögulegt, hvað þá ef menn færu yfir í að hætta við jafngreiðslulán og hætta við verðtryggingu og taka upp greiðslu vaxta af öllum höfuðstólnum hverju sinni, sem getur orðið óbærilegt.

Nú er staðan þannig víða um heim að venjulegt launafólk getur í mörgum borgum hvorki keypt íbúðir né leigt. Það er orðin dálítið hættuleg staða sem ég held að við verðum að skoða og kemur inn á marga hluti svo sem byggingarreglugerð og fleira, en það er náttúrlega langt fyrir utan þetta frumvarp.