144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frumvarp dregur fram tvennt fyrir mér sem hv. þingmaður þarf í sjálfu sér ekkert að vera mér sammála um. Það er í fyrsta lagi það að þetta slær það í gadda að við lifum ekki hér með sjálfstæða mynt án þess að setja svo háa múra millum okkar og umheimsins að að minnsta kosti venjulegum borgurum verður ekki kleift að fara yfir þá. Í öðru lagi fannst mér hæstv. ráðherra líka taka svo til orða að það væri alveg klárt að við þyrftum að taka við skipunum af þessu tagi frá Evrópusambandinu án þess að geta nokkuð um það sagt jafnvel þó að Hæstiréttur hefði komist að annarri niðurstöðu. Það fannst mér skipta máli.

Hitt vakir í hugskoti mínu að ef það er nauðsynlegt að gera þetta, sem ég er ekki algerlega sannfærður um, þá mun það undirstrika ákveðinn mun, t.d. á mér og hæstv. forsætisráðherra. Hann getur alltaf tekið lán á þessum kjörum sem bjóðast. Ég, ræfillinn, mun (Forseti hringir.) hins vegar ekki gera það. Mér finnst það svolítið óþægileg tilhugsun. Hún skilur eftir örlítinn beiskan keim í mínum annars bragðgóða munni.