144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:37]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar.

Varðandi fyrri spurningu þingmannsins um það hvort mér þyki vert að skoða það að lögfesta málefnaleg skilyrði og málefnalegar takmarkanir, þá ég held að það hljóti einmitt að vera verkefni nefndarinnar að velta því fyrir sér hvort slíkt sé hægt. Það gæti einmitt verið eins og hv. þingmaður nefnir, út frá því ef menn hafa tekjur í erlendri mynt og til hvaða tíma, hversu langt greiðsluhæfi viðkomandi lántakandi hefur í þeirri mynt, af því hljóti áhættan að stýrast og eðli máls. Ég held að það sé nánast lágmarkskrafa og kæmi mér á óvart ef fjármálastöðugleikaráð mundi ekki sjálft koma strax með slíkar reglugerðir. Það er mjög mikilvægt að gera það núna strax, ekki einhvern tíma seinna þegar vandinn fer að vaxa. Það er ekki hægt að gera það afturvirkt þannig að núna er rétti tíminn.

Varðandi síðan hina flóknu lagatæknilegu spurningu sem hv. þingmaður beindi til mín þá treysti ég mér ekki til að leggja á það mat hvaða áhrif það hefur á það sem á undan er gengið.