144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[17:48]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður vill túlka það að fyrst hér sé ekki gert tvennt í einu um leið og þessi lög eru opnuð, gerðar breytingar og dregið úr vægi verðtryggingar eða fækkað verðtryggingarformum sem leyfð eru í leiðinni, að þá sé ekki hægt að gera það. Ég held að ekki sé hægt að túlka það þannig. Ég mundi bara segja að það geta verið ákaflega góðar ástæður fyrir því að slíkar breytingar koma ekki fram í þessu tiltekna máli. Ég held að það sé ekki gott að túlka þetta þannig að nú sé alveg orðið útilokað að ráðherrann standi við það sem hann hefur margoft sagt að standi til.

Ég hef heyrt í þinginu þegar lög eru opnuð að nú skuli gera mun fleiri hluti en eru kannski lagðir til í því frumvarpi sem opnar lögin, en ég held að það sé ekki endilega góður vani. Ég held að ræða þurfi hvert mál fyrir sig. Það er ekkert erfitt að opna lög eða erfitt að loka þeim og ég tel að það sé ekki góð venja að tína til ýmsa aðra hluti í leiðinni, hversu mikilvægir sem þeir kunna að vera, heldur þurfi að ræða hvert mál efnislega á sínum forsendum og fá til þess tíma.