144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:05]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það veldur mér stundum áhyggjum hvað við hv. þm. Össur Skarphéðinsson erum oft sammála um ýmis atriði.

Ég nefndi það, já, þetta frumvarp er öðrum þræði forsjárhyggjufrumvarp. Aðalatriði frumvarpsins er það að hér er verið að taka af allan vafa um að hin gengistryggðu lán — sem menn hafa hátt í áratug talað um af mikilli neikvæðni og barmað sér mikið yfir og margir hafa haldið því á lofti og bundið rétt sinn við það að þau hafi verið ólögmæt — eru heimil, þannig að það er þó eitt skref til hægri þar. En hvort ég ætli að styðja frumvarpið þegar til kastanna kemur — ég á ekki von á öðru en hv. efnahags- og viðskiptanefnd fái góða gesti á sinn fund og ég skal ekki útiloka það að fram komi einhver stórkostleg rök sem ég tel ekki beint að finna megi í greinargerð frumvarpsins eins og það er núna. En það kunna auðvitað að koma fram einhver stórkostleg sjónarmið sem ég sé ekki í dag sem renna stoðum undir einhvers konar nauðsyn á þessari forsjárhyggju, það kann að vera. En frumvarpið, andi frumvarpsins er þó þannig að erlend lán, almennt, séu heimil. Við skulum sjá hvort hv. efnahags- og viðskiptanefnd skoði ekki einmitt þessa þætti sérstaklega.