144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:07]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður bæði gladdi mig og hryggði. Hún gladdi mig að því leytinu til að hún sagði það nokkuð skýrt að hún mundi ekki samþykkja frumvarpið, eða þannig skildi ég orð hennar, nema fram kæmi einhver meginbreyting, eða meginrök sem skýrðu það að á þessari forræðishyggju, sem hún kallar svo, væri þörf. Ég tók eftir að hún renndi vonaraugum til hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar. Ég veit ekki hvort hjálpræði kemur þaðan, það kemur bara í ljós. Það verður gaman að sjá hvort hv. þingmaður, eftir skamma veru í þessum sölum en ágæta, verður svo fljótt samdauna þeim kúltúr sem hún lýsti sjálf í ræðu sinni að hún reiki úr sinni rás, ég mun fylgjast með því af athygli.

Það sem hryggði mig var að ég er henni algjörlega ósammála um eðli þessa frumvarps. Hv. þingmaður, hugsanlega til að skapa sér ákveðið svigrúm, sagði að frumvarpið leyfði gengistryggð lán. Það er kannski hálfsannleikur, ekki mikið meira. Ég tel að frumvarpið leyfi en banni. Það bannar til dæmis mér að taka gengistryggð lán. Það bannar kannski ekki hæstv. forsætisráðherra eða þeim sem eiga, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði, nægilega miklar eignir til þess að geta hugsanlega komið þeim í erlenda mynt ef miklar sveiflur verða og geta þess vegna borið höggið. Það er ójafnræði tel ég, svo sem ekki meiri háttar skafanki, en samt, það er galli á frumvarpinu. Ég lít svo á að frumvarpið sé fyrst og fremst til þess að útiloka, hæstv. fjármálaráðherra var nógu ærlegur til að segja það, og koma í veg fyrir að almennir borgarar geti tekið lán af þessu tagi. Það væru bara þeir sem eru mjög sterkríkir eða fyrirtæki sem hafa tekjur í erlendum gjaldeyri.

Ég lít svo á að frumvarpið, þó að það leyfi (Forseti hringir.) að lögum, sé samt að banna, kannski ekki fortakslaust, (Forseti hringir.) en að verulegu leyti.