144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í hvert skipti sem hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason tekur til máls í þessum sal lít ég svo á að ég sé staddur í kennslustund og nem hvert orð auðmjúkur af vörum hins mikla meistara. Ég ætla að leyfa mér að koma með nokkrar spurningar til hv. þingmanns af því tilefni til þess að hann skýri fyrir mér ýmislegt sem mér er hugleikið eftir ræðu hans. Mér finnst hv. þingmaður oft fljúga full frjáls eftir svona straumum sem stafa frá fjármagninu en ég verð samt að segja honum til hróss að hann tekur oft afstöðu eða lendir þar sem réttlætið á líka heima gagnvart þeim sem eiga minna umleikis en margir.

Fyrsta spurning mín til hans varðar kannski ekki efni þessa frumvarps, en upphaf ræðu hans. Hv. þingmaður fannst mér segja það mjög skýrt án þess endilega að meitla það í kjarna að hann væri á móti því að afnema 40 ára lánin. Ég fagna því mjög. Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að það sé ósvinna að afnema þau. Í besta heimi allra heima væri auðvitað æskilegt að húsnæðismálum væri með öðrum hætti fyrir komið, en staðan er bara þannig að við lifum í skógi villtra lögmála og ef ég væri núna að hefja minn feril í lífinu sem fjölskyldumaður mundi ég miklu frekar leigja hjá sjálfum mér eins og ég kalla stundum það þegar menn taka 40 ára lánin, heldur en lúta lögmálum markaðarins í dag.

Spurning mín til hans er þessi: Er hann sammála mér um að ekki sé rétt að afnema 40 ára lánin? Hitt er þá kannski ekki spurning en það gladdi mig að hv. þingmaður greindi þetta frumvarp nákvæmlega eins og ég. Það býr til tvo hópa. Annar er örsmár, mjög vel stæður og settur og getur notfært sér að taka erlend lán, en við ræflarnir ekki. Það er ójafnræði. Það er einn af skafönkunum á þessu (Forseti hringir.) frumvarpi.