144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:33]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítill galli hér í sal að menn fara út og suður. Þetta frumvarp fjallar um gengistryggð lán en ekki verðtryggð. Einhvern veginn hefur mönnum samt tekist að þvæla 40 ára lánum hér inn í umræðuna þótt þau komi hvergi fram í efni þess. Ég hélt ég hefði verið nægilega skýr með að segja að það eru engar málefnalegar ástæður sem mæla fyrir því að banna 40 ára lán, 50 ára lán, 60 ára lán, frekar en 25 ára lán. 40 ára lán eru bara með mun þægilegri greiðslubyrði og þau nánast nálgast „islamic banking“, þ.e. verið er að greiða vissulega lítinn hluta höfuðstólsins framan af, svo smávex greiðslan samkvæmt eiginleikum annuitets-lána. Ég tel alveg fráleitt að fara í einhverja herferð til að slátra 40 ára lánum. Það er bara málefni hvers og eins hvort hann taki slíkt lán. Ég ætla ekki að fara að banna það.

Hitt atriðið með flokkun mannkyns í betur megandi og velmegandi þá hef ég aldrei lagt í það og eina sem ég mæli er bara hvort viðkomandi hafi greiðslugetu, já eða nei. Ég starfaði sem bankaútibússtjóri í allmörg ár og þurfti að taka af skarið um það að mæla greiðslugetu með einföldum hætti og tókst það alveg þokkalega og komst hjá því, eftir því sem mér er sagt, að sá banki eignaðist mikið á uppboðum, þannig að þetta er mín skoðun í stuttu máli.

Ég hef lokið máli mínu.