144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:37]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit nú ekki hvort þetta var spurning sem kallar á svar, en hvað um það. (Gripið fram í.) Ég er fylgjandi efni frumvarpsins í meginatriðum. Þarna eru ákveðin þjóðhagsvarúðarákvæði sem kann að þurfa að grípa til við vissar aðstæður og það eru sömuleiðis verið að heimila gengistryggð lán sem er annað form af lánum í erlendri mynt. Gott og vel. Ég segi bara að það er ágætt að það skuli vera heimilað og formið ráði ekki för. Vissulega stóð vilji manna til greiðslu samkvæmt ákveðnu ferli, en svo varð bara nokkur óánægja þegar krónan féll og þar duttu menn síðan í ákveðinn lukkupott.

Ég segi ósköp einfaldlega að ég treysti því að við fylgjum báðir þessu frumvarpi og náum af því verstu agnúum, a.m.k. að það fylgi með í nefndaráliti að fara beri með hófsemd í greiðslumat, hver svo sem efni manna eru. Það er fyrst og fremst horft til þess hvort menn geti borgað. Það er náttúrlega grundvallaratriði í lánveitingum að horfa til þess hvort viðkomandi geti borgað og það kunna að verða sveiflur á erlendum lánum og það kann að verða breyting á vísitölu neysluverðs. Þannig að ég vænti þess, hv. þingmaður, að þú greiðir atkvæði eins og ég.