144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[18:48]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki endilega hugsað mér að tala í þessu máli í 1. umr. heldur hlýða á mál manna og sjá hvað væri hér á ferðinni. En maður getur ekki orða bundist þegar verið er að ræða mál eins og gengistryggingu. Við ræðum mikið um verðtryggingu. Nú erum við farin að ræða aftur um gamlan, hvað skal kalla hann, kunningja sem kallast gengistrygging. En við komum alltaf að því sama, þ.e. að við erum með dálítið lítinn skrýtinn gjaldmiðil og þurfum alls konar tæki og tól til að geta verið með hann og nýtt. Það er eitthvað sem ég sakna að ríkisstjórnin ræði, þ.e. stóru myndina í gengismálunum. Við erum svona að ræða eitthvað jú, jú, Framsóknarflokkurinn virðist hafa mikinn áhuga á að keyra áfram afnám verðtryggingar en virðist ekki fá mikið „backup“ í það. Nú er fjármálaráðherra greinilega búinn að ýta því til hliðar og taka fram fyrir í röðinni að setja lög um erlend lán og gengistryggingar. Gott og vel, en ég sakna þess að menn ræði stóru myndina, sem er hvaða peningastefnu og hvernig gjaldmiðil við ætlum að reka hér að afloknu því tímabili sem heitir haftatímabilið, gjaldeyrishaftatímabili þessarar aldar. Mér finnst það dálítil lenska hjá ríkisstjórninni að við erum alltaf að garfa í hinu og þessu, einhverjum plástrum hér og þar og einhverju svona smotteríi, en menn ræða ekkert stóru myndina.

Annað einkenni, sem er meinsemd í okkar samfélagi, sem mér finnst umræðan og frumvarpið vera að birta er sá aðstöðumunur sem hópar í samfélaginu eru í. Við þekkjum það og er mjög íslenskt fyrirbæri, að í gegnum það að komast í aðstöðu til einhvers þá hafa menn hagnast verulega. Menn hafa komist í aðstöðu sem hefur tryggt þeim kvóta eða hlutdeild í sjávarauðlindinni sem hefur valdið því að þeir hafa getað hagnast verulega. Menn hafa komist í aðstöðu í gegnum eitt og annað hér á landi sem veldur því að þeir eru í annarri aðstöðu en hinn almenni Íslendingur til að hagnast og til að koma ár sinni betur fyrir borð. Það sama er upp á teningnum varðandi gjaldmiðilinn. Það eru ekki allir sem geta notað erlenda gjaldmiðla, en það geta þó sumir. Við ræðum það aldrei í þessum sal að það eru ekki allir sem eru bundnir við það að þurfa að nota íslenska verðtryggða krónu. Þeir sem mestar eiga eignirnar, þeir sem hæstar hafa tekjurnar, þeir sem eiga stóru fyrirtækin, þeir aðilar eru ekkert bundnir við það að þurfa að nota verðtryggða íslenska krónu eins og almenningur í landinu og lítil og meðalstór fyrirtæki.

Mér fannst hv. þm. Össur Skarphéðinsson draga það ágætlega upp í andsvari áðan að frumvarpið er í raun og veru að auka þar í og frumvarpið er í rauninni birtingarmynd þeirrar stöðu, þ.e. þeirrar stöðu að hin erfiða, snúna verðtryggða íslenska króna er aðallega í höndunum á almenningi í landinu og litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Menn eru ekki bundnir af henni eftir því sem þeir eiga meiri eignir eða hafa hærri tekjur eins og fram hefur komið og frumvarpið er ekkert annað en birtingarmynd af því. Þess vegna verð ég að segja: Hvenær ætlum við að fara að ræða stóra málið sem er gjaldmiðillinn? Viljum við hafa þetta svona langt inn í framtíðina? Viljum við hafa það þannig að við séum með nokkra gjaldmiðla? Og viljum við hafa þann aðstöðumun sem frumvarp þetta er að birta okkur? Er það svona sem við viljum hafa það? Svar þeirrar sem hér stendur er nei. Ég vil það ekki. Ég vil að hér sitji menn við sama borð. Ég vil hafa gjaldmiðil sem er nægjanlega sterkur til að ekki þurfi að tryggja hann eftir hinum ýmsustu krókaleiðum. Og ég vil hafa gjaldmiðil sem allur almenningur getur nýtt til að koma sér upp þaki yfir höfuðið án þess að kosta til töluvert meiri fjármunum en fólk í nágrannaríkjum okkar. Við erum alltaf að vinna með einhverja svona birtingarmynd þeirrar rótar, sem er rót vandans, en við tölum aldrei um vandann sjálfan. Við tölum bara um hinar ýmsu afleiðingar og reynum einhvern veginn að vinna með þær.

Virðulegi forseti. Þess vegna kalla ég eftir því af hálfu ríkisstjórnarinnar, af hæstv. fjármálaráðherra, að hann fari að tala við okkur um þá stóru mynd og um þetta meginmál og meginmeinsemd og þennan meginvanda.

Virðulegi forseti. Svo verð ég líka að nefna að ekki er hægt að fara í gegnum þessa umræðu og gera eins og hv. þm. Frosti Sigurjónsson gerði áðan með því að segja: Við getum ekki verið að blanda hér saman frumvarpi um gengistryggingar og síðan aftur frumvarpi um verðtryggingu. Ég er honum algjörlega ósammála vegna þess að Framsóknarflokkurinn sagði mjög skýrt í aðdraganda síðustu kosninga að hér væri ekkert vandamál að afnema verðtryggingu. Því var haldið fram í þessum sal, í þessum stól, t.d. af núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, að það eina sem þyrfti til væri viljinn. Ég spyr því: Hvar er hann nú? Vegna þess að ekki er hægt að segja: Ja, við getum ekkert verið að tala um það hér vegna þess að við erum að ræða gengistryggingu. — Jú, við getum það nefnilega víst og við eigum að gera það vegna þess að menn komu fram með svona loforð og fyrir ári eða um 13 mánuðum var lögð fram einhvers konar aðgerðaáætlun um með hvaða hætti það ætti að gera. Síðan er ekki komið með annað hingað inn en gengistryggingu og menn bera fyrir sig að það sé vegna þess að ESA sé að lemja á þeim. Heyr á endemi.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með Framsóknarflokkinn í þessu máli, en það kemur mér samt ekki á óvart. Vegna þess að þegar maður horfir á sögu Framsóknarflokksins í þessum málum öllum saman þá eru menn með gríðarlega stór orð á lofti, halda stórum hlutum fram, en geta ekki skilað nokkrum sköpuðum hlut. Ég ætla að nefna dæmi. Framsóknarflokkurinn er oft harður í máli þegar kemur að erlendum kröfuhöfum, kallaðir hrægammar, þessir vondu, ljótu hrægammar frá útlöndum, en þegar kemur svo að því að taka á þeim þá skila menn engu. Þá skila menn bara einu stóru núlli. Tökum dæmi. Hvernig greiddi Framsóknarflokkurinn atkvæði í þessum sal þegar tekin var ákvörðun af hálfu fyrri ríkisstjórnar að taka þrotabú gömlu bankanna inn undir gjaldeyrishöft? Þeir sátu hjá. Þeir skiluðu auðu. Þegar Framsóknarflokkurinn hafði tækifæri til að taka á kröfuhöfum þrotabúa föllnu bankanna, eins og þeir hafa sjálfir kallað hrægamma, þá gerðu þeir ekkert, þeir skiluðu núlli.

Hvað er svo að gerast varðandi stóra verðtryggingarmálið? Fyrir 13 mánuðum skilaði nefnd skýrslu um málið, sem átti ekki að þurfa neitt nema viljann til að leysa. Ekkert annað. Sú nefnd skilaði af sér, hún lagði fram einhvers konar verkáætlun um það með hvaða hætti eigi að ráðast í afnám verðtryggingar, en það hefur ekki bólað á einum einasta þætti þess síðan. Það er ekki nema von að fólk spyrji þegar menn opna þá sömu löggjöf undir því fororði að þeir séu lafhræddir við ESA: Bíddu, en hvað varð um afnám verðtryggingar? Það er hin eðlilegasta spurning sem hér getur komið upp við umræðuna vegna þess að loforðin voru slík. En það var einfaldlega þannig að fyrir 13 mánuðum var sett fram áætlun um það að í upphafi árs 2015 ætti að ráðast í ákveðnar breytingar sem væru undanfari þess að hægt yrði að ráðast í afnám verðtryggingar. Menn eru enn og aftur í stóru yfirlýsingamálunum að skila stóru núlli. Núlli. Í staðinn er komið með frumvarp um gengistryggingu.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að ég botna hvorki upp né niður í þessu og ég held að heiðarlegast væri af hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að koma í þennan stól og segja fólki það hreint út að þeir ráði ekki við þetta, að þeir geti ekki gert þetta, að verkefnið sé stærra en svo að hægt sé að einhenda sér í það eftir hádegi eftir kosningar. Það væri langheiðarlegast vegna þess að væntingarnar sem voru gefnar með þeim orðum og þeim yfirlýsingum voru þannig að þúsundir manna og kvenna fyrir utan þetta hús bíða eftir þessu í þeirri trú að hægt sé að gera þetta með viljann einan að vopni. Þess vegna verða menn að fara að svara þessu.

Ég verð að segja eins og er að þetta fær mann til að hugsa til þess þegar hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sem hefur kannski verið með hvað stærstu yfirlýsingarnar í málinu, sagði hér síðast á haustdögum að það sé aldeilis hægt að treysta þessari ríkisstjórn fyrir því að klára þetta mál, þetta sé nú allt að koma og menn hafi lagt fyrir sig áætlun eftir að einhver nefnd var sett á laggirnar. Það ætti þá kannski einhver að segja henni að sú áætlun gerir ráð fyrir að menn séu að gera breytingar, t.d. að banna ákveðna lánaflokka í byrjun árs 2015. Og hvar stöndum við núna í byrjun árs 2015? Og það að hér sé kominn inn svona lagabálkur um gengistryggð lán sem opnar nákvæmlega löggjöfina sem þyrfti að breyta til að ná því fram sem hér hefur verið rætt, það segir mér að hitt sé ekki á leiðinni, menn fari ekki að skila því. Ég held að menn þurfi verulega að fara að hugsa sinn gang hvað það varðar hvað þeir segja við fólk að hægt sé að gera og hverju menn lofa, því að stjórnmálamenn lofa oft fólki að þeir geti gert ýmislegt fyrir það, af því að það er alvarlegur hlutur að lofa svona stóru máli og skila því ekki.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur yfirumsjón með þeirri vinnu að gera þessar breytingar á löggjöfinni. Hann og ríkisstjórnin ákveða að koma fyrst með þetta mál, en það bólar hvergi á hinu, verðtryggingarmálinu. Ég hlýt því að spyrja, og vona að hæstv. ráðherra komi að því í ræðu sinni, hvað líði vinnu við gerð frumvarps sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sagði þeirri sem hér stendur á haustdögum í svari úr þessum stól að væri á leiðinni, hvað líður þeirri vinnu? Ég vona að hæstv. ráðherra sé hér einhvers staðar og hlýði á þá spurningu og svari henni áður en þessu máli lýkur í dag, vegna þess að það er ekki hægt að mínu mati eftir allar þær yfirlýsingar, eftir öll þau stóru orð sem hér hafa fallið úr þessum stól um málið, tímasetningar, áætlanir sem menn hafa lofað að standa við, að eftir allt það sem hér hefur á gengið þá sé ráðherra félags- og húsnæðismála gerður að ómerkingi með þeim hætti að hér sé skilað einu stóru núlli í málinu.

Ég minni á að stór hluti þeirra sem nú verma ráðherrabekkina mér á hægri hönd og vinstri hönd voru á frumvarpi á síðasta kjörtímabili þar sem lagt var til að setja þak á verðtryggingu. Hvar er það frumvarp núna þegar menn eru í aðstöðu til að skila einhverju? Það er hvergi. Það frumvarp er hvergi að sjá. Við höfum ekki séð það og við sjáum ekki einu sinni ráðherrana hér inni, hvað þá hv. þingmenn Framsóknarflokksins sem hæst hafa talað í málinu í þessum sal, taka þátt í umræðunum til að segja okkur hvenær verðtryggingarmálið komi hér inn.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að kominn er tími til að Framsóknarflokkurinn og hv. þingmenn hans komi hreint fram hvað þetta mál varðar og ekki síst þeir ráðherrar sem hæst (Forseti hringir.) hafa talað.