144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga birtist það mjög skýrt, með framlagningu þessa máls á þessum tímapunkti, hvar áherslan liggur, þ.e. hvar forgangsröðunin liggur. Hún liggur í því að fyrst skal drífa í því að bregðast við yfirvofandi dómsmáli af hálfu ESA og síðan mögulega eða kannski uppfylla kosningaloforð. Menn hafa haft, eins og ég fór yfir í ræðu minni, 13 mánuði frá útgáfu skýrslunnar um það hvernig menn ætla að ráðast í afnám verðtryggingar og hafa ekki skilað einu einasta orðið af því hingað inn í þingsal, ekki einu einasta orði. Það er því algjörlega augljóst í mínum huga hvar trúnaður þessarar ríkisstjórnar liggur, hann liggur ekki hjá þeim sem kusu þá út á þetta mikla loforð.

Ég verð að segja alveg eins og er að eftir að hafa fylgst með þessum málum lengi þá var ég býsna spennt fyrir því að sjá hvernig menn ætluðu að uppfylla þetta stóra loforð, þetta átti allt að vera svo einfalt og þægilegt og ekkert mál að gera. Síðan hefur maður ekkert annað séð en það að Íbúðalánasjóður, sem er nú í höndum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem hæst hefur talað um þessi mál, er hættur við að bjóða upp á óverðtryggð lán en býður enn upp á dýr verðtryggð lán. Ekki er að sjá að menn séu að efna þetta þar.

Ég verð því að segja að í hinu stóra samhengi hlutanna þá eru orð stjórnmálamanna, sem tilheyra hinum ágæta stjórnmálaflokki Framsóknarflokknum, ansi smá, vegna þess að þau ná ekki að skila neinu nema menn hafi kannski aldrei ætlað sér það, heldur (Forseti hringir.) hafi bara gert allt til að ná í atkvæði. Það er sú staða (Forseti hringir.) sem blasir við mér núna.