144. löggjafarþing — 70. fundur,  25. feb. 2015.

vextir og verðtrygging o.fl.

561. mál
[19:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt til getið hjá hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur að ég hef setið hér eins og kirkjumús undir öllum þessum umræðum vegna þess að ég lít á umræður af þessu tagi eins og kennslustund í hagfræði fyrir mig. Ég dreg enga dul á það að mér er til dæmis alltaf mikil gleði í huga þegar hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason kemur í slíkar umræður, ekki bara vegna þess að hann getur á köflum verið feiknalega skemmtilegur án þess endilega að ætla sér það, en líka vegna þess að hann er hafsjór fróðleiks, fyrir utan þá merku þverstæðu sem ég vakti eftirtekt á hér fyrr í dag í fari hans sem þingmanns, að á sama tíma og hann svífur oft á vængjum fjármagnsins og tekur afstöðu þar með, þá er réttlætistaugin í honum svo sterk að hann lendir stundum þeim megin sem ég kalla réttum megin, þ.e. þar sem málstaður þeirra sem bera minnst úr býtum stendur.

Þess vegna tók ég nokkra gleði úr þeim orðum hv. þm. Vilhjálms Bjarnasonar þegar hann í dag gagnrýndi nákvæmlega þetta sem ég og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir erum að gagnrýna, að þetta tekur utan um eitt örlítið brot af íslenska samfélaginu, auðugasta brotið, lyftir því á stall og býr til sérstaka stöðu fyrir það. Mig sker í hjartað þegar slíkt er beinlínis slegið í gadda í lög og það gladdi mig að hið sama gerðist hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni. En hann sagði: Við skulum spreyta okkur á því að reyna að ná markmiðum frumvarpsins án þess að þetta gerist. Það er alla vega fallegt markmið.

En svo ég svari spurningunni ærlega þá hef ég ekki svarið, ég hef það ekki. Ég sé það ekki alveg. Ég tók náttúrlega eftir því að þegar hæstv. fjármálaráðherra hafði í reynd sagt að þetta væri fyrst og fremst fyrir fyrirtæki og þá sem stunda útflutning, þá sagði hann líka: Ég vil samt að þeir njóti vafans sem eiga það mikinn eignastabba að þeir gætu hugsanlega skipt honum fyrir gjaldmiðil og tekið á sig sveiflu. Hann vill láta þetta prósent njóta vafans.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, er hugsanlegt (Forseti hringir.) að þessi hugsun og (Forseti hringir.) andi frumvarpsins brjóti gegn jafnræðisákvæði (Forseti hringir.) stjórnarskrárinnar? Svo bið ég hv. þingmann (Forseti hringir.) afsökunar á því að mér (Forseti hringir.) tókst ekki að svara seinni spurningunni, geri það í næsta andsvari.