144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ótrúlega lítil umræða hefur verið um það mat greiningardeildar ríkislögreglustjóra að hér sé aukin hætta á hryðjuverkum. Ég vil hvetja alla til að lesa viðtal í Morgunblaðinu í dag við Helga Gunnlaugsson afbrotafræðing. Þar fer hann á mjög yfirvegaðan og málefnalegan hátt yfir þessi mál og bendir á það sem augljóst er að það er fullkominn barnaskapur að halda því fram að við getum ekki lent í því sama og þær þjóðir sem við berum okkur saman við og eru okkar næstu nágrannar.

Við vitum það til dæmis vegna hinna hörmulegu hryðjuverka í Útey og þess sem við sáum fyrir nokkrum vikum í Danmörku að því miður getur þetta gerst. Helgi Gunnlaugsson leggur áherslu á að við höfum yfirsýn og getum metið hættu með yfirveguðum hætti, og vísar þar sérstaklega til þess að nýverið höfnuðu dómstólar því að tveir hælisleitendur yrðu settir í gæsluvarðhald, en annar þeirra lýsti yfir stuðningi við Ríki íslams og hótaði að myrða fjölda fólks ef honum yrði vísað úr landi.

Virðulegi forseti. Við þurfum að líta til Norðurlandanna eins og Helgi Gunnlaugsson bendir á og skoða hvort við þurfum að breyta hér löggjöf og vinnureglum og vinna betur með nágrannalöndum okkar til þess að lágmarka hættuna á hryðjuverkum. Helgi bendir líka á að við megum alls ekki falla í þá gryfju að einblína á ákveðna hópa í þessu sambandi, enda sýnir sagan að hryðjuverkamenn hafa komið úr ýmsum röðum í gegnum tíðina. Markmið okkar hlýtur að vera, eða það er alla vega mín skoðun, að Ísland á að vera opið og við eigum alls ekki að mismuna fólki á grundvelli skoðana og trúarbragða. Málið snýst ekki um það, virðulegi forseti, það snýst um öryggi allra landsmanna. Það er forgangsmál að við sem erum á Alþingi Íslendinga tökum þessi mál fyrir með málefnalegum (Forseti hringir.) og yfirveguðum hætti.