144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að vera á svipuðum slóðum og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson í ræðu sinni áðan, en þó ekki. Í Kastljósi RÚV í gærkvöldi var sýnt viðtal við yfirmann greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem gerði mig mjög djúpt hugsi og vonandi fleiri þingmenn hér inni. Tilefnið var nýleg skýrsla þar sem fram kemur að greiningardeildin telji líkur á hryðjuverkum á Íslandi fara vaxandi og kallar eftir auknum rannsóknarheimildum til að bregðast við þeirri ógn. Sagði yfirmaðurinn í viðtalinu að hættumatinu yfir Íslandi hefði verið breytt þar sem ekki væri hægt að útiloka að hér yrðu framin hryðjuverk, bæði vegna heimsmálanna og ástandsins hér innan lands, eins og hann orðaði það án þess að það væri sérstaklega útskýrt hvað fælist í því.

Þessar fregnir eru nokkuð á skjön við til dæmis upplýsingar Europol sem sýna að hryðjuverkum í Evrópu hafi mikið farið fækkandi og nokkuð stöðugt frá árinu 2007 þó svo að auðvitað hafi verið framin þar hryðjuverk. Ekki komu nein haldföst dæmi um þróunina í máli fulltrúa lögreglunnar heldur var aðeins um almennar staðhæfingar að ræða, að lögreglan hefði upplýsingar um hina og þessa einstaklinga sem telja mætti hættulega. Sömuleiðis var mjög sérkennilegt að hlusta á embættismanninn spyrða saman einstaklinga sem vilja fremja voðaverk í krafti málstaðar, eiginlega hryðjuverkamenn, og hins vegar andlega veikt fólk sem ástæða væri til að óttast. Og til að krydda blönduna enn betur var svo bætt við vísun í hælisleitendur sem sérstakan áhættuhóp.

Því miður verð ég að segja að mér fannst þessi málflutningur embættis (Forseti hringir.) ríkislögreglustjóra bera einkenni hræðsluáróðurs (Forseti hringir.) og það tel ég afar hættulegt þegar um er að ræða jafn mikilvægan (Forseti hringir.) og viðkvæman málaflokk og (Forseti hringir.) valdheimildir lögreglu. (BirgJ: Heyr, heyr.)