144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og nýlega hefur komið fram er meiri jöfnuður á Íslandi en víðast hvar annars staðar og komandi kjarasamningar eru tækifæri til þess að varðveita þann jöfnuð.

Margir hafa áhyggjur af kjarasamningunum sem fram undan eru. Það er nokkuð ljóst að þar verður meginverkefnið að bæta kjör þeirra sem lægst hafa launin, en ýmis tækifæri eru í þeim kjarasamningum vegna þess að svo virðist sem búið sé að semja við ýmsa stóra hópa í landinu á almennum vinnumarkaði. Þannig hafa til dæmis bankamenn greinilega fengið mjög ríflegar hækkanir undanfarið, bæði í formi beinna kauphækkana og bónusa, væntanlega vegna þess að þeir hafa staðið sig með afbrigðum vel undanfarin ár og sjálfsagt er verið að verðlauna þá fyrir það.

Síðan hefur aðilum vinnumarkaðarins gengið ágætlega að semja um kjör hæstráðenda í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóðanna, og millistjórnenda. Það kemur berlega í ljós, og kom í ljós í tekjublaði Frjálsrar verslunar í fyrra og hefur komið fram í ýmsum mælingum, að þeir stjórnendur virðast hafa það býsna gott og hafa fengið býsna góðar launabætur, þannig að það blasir við að þar er nóg að gert og þarf ekki að tryggja þeim, þessum hópum, frekari launabætur. Að því leytinu til held ég að komandi kjarasamningar verði auðveldari viðfangs vegna þess að það er hreinlega hægt að sleppa því að semja við þessa hópa, stóru hópa, sem þegar hafa fengið gríðarlegar launabætur.

Verkefnið hlýtur því að vera að hækka laun þeirra sem lægst laun hafa, og ég er alveg sannfærður um að aðilar vinnumarkaðarins geti komið sér jafn vel saman um það eins og að hækka laun æðstu stjórnenda í fyrirtækjum í eigu lífeyrissjóða.