144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á máli sem hefur ekki fengið mikla umfjöllun, en er hluti af stóru og mjög mikilvægu máli fyrir Ísland. Miklar vonir eru bundnar við Hafið, sem er öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins og er ætlað að vinna að útfærslum hugmynda um verndun hafsins. Samningur um stofnun Hafsins var undirritaður á alþjóðlegu Norðurlandaráðstefnunni Arctic Circle, sem fór fram í Hörpu á síðasta ári. Marorka heldur utan um verkið. Verkefnið er stutt af fjölmörgum aðilum, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, borginni, háskólum borgarinnar og ýmsum öðrum stofnunum. Síðast en ekki síst er ástæða til að telja upp Clean Tech Iceland sem eru samtök fyrirtækja í grænni tækni og fjölda annarra tæknifyrirtækja.

Fáar þjóðir eru eins háðar hreinu hafi og sjálfbærri nýtingu auðlinda og Íslendingar enda hefur sjávarútvegur verið undirstaða velferðar og framfara hér á landi. Íslendingar ættu því að vera í fararbroddi þegar kemur að rannsóknum á ástandi hafsins, setningu reglna til verndar því og þróun tækni sem verndar umhverfi og auðlindir þess, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og með víðtæku samstarfi fyrirtækja og stofnana og nýta þekkingu sem þegar er til staðar til að auka vitund á breytingum sem gert er ráð fyrir vegna loftslagsbreytinga og vegna vaxandi skipaumferðar í íslenskri landhelgi. Stefnt er að því að starf Hafsins geti meðal annars orðið til þess að Ísland verði leiðandi afl á norðurslóðum, stuðlað að verndun lífríkisins í kringum landið og sjálfbærri nýtingu vistkerfa hafsins. Hægt verði að fjölga verðmætum störfum í tækni- og hugverkageiranum og auka almennt skilning og þekkingu á hafinu (Forseti hringir.) og mikilvægi þess.