144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera að umtalsefni Fæðingarorlofssjóð, Atvinnuleysistryggingasjóð og Vinnumálastofnun. Margt hefur verið skrafað og ritað um vinnumarkaðsúrræði. Fram undan eru kjarasamningar á almennum markaði og vitað er að markaðurinn sjálfur, atvinnurekendur og verkalýðshreyfingin, vill gjarnan fá þessi verkefni í sínar hendur. Í ljósi þess geri ég þetta að umtalsefni, virðulegur forseti: Af hverju er það ekki rætt af hálfu ríkisins af fullri alvöru að Vinnumálastofnun, Atvinnuleysistryggingasjóður og Fæðingarorlofssjóður verði sett í hendurnar á samtökum atvinnulífsins og verkalýðsfélaganna til þess að samtökin sjái sjálf um þau virkniúrræði sem þar þarf að halda utan um, í stað þess að ríkið sé að vasast í verkefnunum?

Ég er hugsi yfir því að við hér skulum almennt ekki ræða þau mál samhliða því að standa í ræðustól og velta fyrir okkur hvort kjarasamningar á almennum markaði eigi að vera í prósentuvís eða krónutöluvís eða hvort þessi hópur hafi fengið nóg eða hinn hópurinn hafi fengið nóg, eða hvernig hlutirnir gerast á eyrinni, eitthvað sem okkur sem þingmönnum kemur ekkert við, akkúrat ekki neitt, og er ekki í okkar verkahring. Við getum haft skoðanir á því en þær skipta engu þegar komið er að samningaborðinu. Þarna eru hins vegar ákveðin vinnumarkaðsúrræði sem gætu gagnast þeim sem þurfa á þeim að halda, þau væru nær í rauntíma, nær í verklagi hjá þeim sem eiga um þetta að fjalla og ríkið ætti ekki að vera með puttana í því.