144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

innanlandsflug.

[11:19]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er vissast að taka fram að ég sat í þeim starfshópi sem hér hefur borið á góma, um gjaldtöku í innanlandsflugi og mögulegar leiðir til að lækka fargjöld. Það er í sjálfu sér ekki skrýtið að innanlandsflugið hafi átt í vök að verjast. Margir samverkandi þættir hafa þyngt þar róðurinn; efnahagsástandið almennt og minni kaupmáttur, hátt eldsneytisverð fram undir það síðasta, veiking krónunnar hefur neikvæð áhrif á flugrekstur því að hann er verulega tengdur og háður kostnaði sem til fellur í erlendri mynt, og svo auðvitað auknar álögur sem menn neyddust til að grípa til til að halda rekstri innviða flugkerfisins gangandi. Samtímis því hafa svo stórauknir fjármunir farið í að styrkja almenningssamgöngur á landi síðastliðin tvö, þrjú ár, sem er vel, en allt þetta verður að hafa í huga þegar staða innanlandsflugsins er skoðuð, enda sjáum við mjög neikvæða þróun mörg undanfarin ár; farþegum fækkar ár frá ári og fjölgun erlendra ferðamanna, sem nýta sér vissulega innanlandsflugið talsvert þannig að um 17% af farþegum Flugfélags Íslands eru erlendir ferðamenn, dugar ekki til að vega upp á móti fækkun Íslendinga í því efni. Það er því mikið í húfi að snúa þeirri þróun við. Það er gríðarlega mikið undir hér því að án innanlandsflugsins er búseta í fjölmörgum landshlutum stórkostlega skert og það væri einfaldlega ekki hægt að starfrækja menntakerfið eða heilbrigðiskerfið í landinu með þeim hætti sem gert er í dag ef ekki væru tiltölulega greiðar flugsamgöngur.

Ég tel þess vegna einboðið að gera þá tilraun, ef við orðum það svo, sem starfshópurinn leggur til, leggur til, segjum í tvö, þrjú ár, að fella niður farþega- og lendingargjöld og endurgreiða flugrekendum virðisaukaskatt af eldsneyti megi það duga til að lækka fargjöld um 12–15%. Væri til mikils að vinna ef tækist að snúa þessari þróun við. Taki farþegum að fjölga á nýjan leik batnar afkoma flugsins og við komumst (Forseti hringir.) út úr þeim neikvæða spíral sem við höfum verið í að undanförnu og hefur skrúfað flugið niður.